Bergþóra Árnadóttir profile picture

Bergþóra Árnadóttir

Bergþóra Árnadóttir - Tribute

About Me


My Interests

Music:

Member Since: 11/6/2007
Band Website: bergthora.blog.is
Band Members:

Influences: Vísnasöngkonan og tónsmiðurinn Bergþóra Árnadóttir fæddist 15. febrúar 1948 og hlaut í vöggugjöf tónlistarhæfileika sem hún sótti til beggja foreldra sinna, Aðalbjargar Margrétar Jóhannsdóttur og Árna Jónssonar. Bergþóra var yngsta barn þeirra hjóna, en albróðir hennar tveimur árum eldri lést í bílslysi sjö ára gamall og tvö eldri hálfsystkinisammæðra ólust einnig upp á heimilinu. Bernskuheimilið í Hveragerði var tónlistarheimli og þau Árni gítar og Alla Magga, einsog þau voru jafnan kölluð, léku bæði á hljóðfæri. Hann var sennilega með þeim fyrstu til að nota gítar í hljómsveit, en Alla Magga spilaði á munnhörpu, samdi lög og texta og tók virkan þátt í starfi leikfélagsins í Hveragerði. Frá blautu barnsbeini var Bergþóra þannig umkringd söng og hljóðfæraslætti og var aðeins sex ára gömul þegar lag eftir hana var flutt í barnatíma útvarpsins, þó ekki af henni sjálfri heldur nokkrum telpum úr Hveragerði sem mamma hennar hafði æft lagið með. Að launum fékk tónsmiðurinn dúkkukerru.

Bergþóra vildi snemma fara sínar eigin leiðir og aðeins 16 ára gömul fór hún alfarin úr foreldrahúsum. Sjálf sagðist hún hafa lent í þvi óvart að gifta sig 17 ára og var orðin útivinnandi móðir aðeins 19 ára gömul. Frá sama tíma eru fyrstu heimildir um að hún hafi komið fram opinberlega á skemmtikraftakvöldi í Lídó 10. desember 1967. Í stuttu viðtali í Morgunblaðinu segist hún hafa verið að syngja og spila frá því hún man eftir sér og hafa komið fram á skólaskemmtunum í Hveragerði og einnig í söngleik í Borgarfirði meðan hún vann og stundaði jafnframt nám í Reykholti. Í fyrstu mun Bergþóra hafa flutt lög og texta eftir móður sína, en fljótlega var hún farin að semja sjálf lög við ljóð þekktra skálda á borð við Stein Steinarr, Davíð Stefánsson og Tómas Guðmundsson. Hjónaband Bergþóru og Karls Valdimarssonar stóð í 4 ár og hún gat lítið sinnt tónlistinni á þeim tíma. Það var því ekki fyrr en fyrstu lög hennar komu út á hljómplötum sem hún fór að vekja athygli sem söngvari og lagasmiður. Af þeim stöðum sem hún kom fram á ber Hótel Borg hæst en þar tók hún þátt í Kvöldkabarett sumarið 1974 ásamt Halla og Ladda, Hljómsveit Ólafs Gauks og Karli Einarssyni eftirhermu.

Fyrstu lög Bergþóru sem komu út á hljómplötu voru tvö lög á safnplötunni Hrif II, sem unnið var að hjá útgáfunni ÁÁ records árið 1975, en útgáfunni seinkaði svo um munaði og platan kom ekki út fyrr en seint á árinu 1976. Það sama ár hafði Bergþóra tvívegis komið fram í sjónvarpi, fyrst í þættinum Í kjallaranum, þar sem ásamt henni kom fram hljómsveitin Diabolus in Musica, og seinna í þætti með Jazzkvartett Guðmundar Steingrímssonar, en þar var hún kynnir og söng tvö lög. Á plötunni Hrif II voru fleiri tónlistarmenn að stíga sín fyrstu skref sem áttu eftir að gera garðinn frægan, því þar var einnig að finna fyrstu hljóðritanir Spilverks þjóðanna. Sá sem átti hvað stærstan þátt í útsetningum á lögum Bergþóru var Jakob Frímann Magnússon og hann ásamt hljóðfæraleikurum í hljóðverinu sáu um undirleik. Lögin tvö urðu býsna ólík þeim stíl sem átti eftir að einkenna tónlist Bergþóru síðar meir.

Haustið 1976 hófust upptökur á fyrstu sólóplötu Bergþóru og stóðu með hléum fram á vorið 1977. Hún gerði samning við Fálkann sem þá var öflug hljómplötuútgáfa og fóru upptökur fram í nýju hljóðveri Hljóðrita í Hafnarfirði. Til liðs við sig fékk hún nokkra valinkunna tónlistarmenn, en meðal þeirra var Pálmi Gunnarsson, sem lék á bassa og átti seinna eftir að vinna mun meira með henni. Upptökum stjórnaði Baldur Már Arngrímsson. Á þessum tíma höfðu orðið þær breytingar á högum hennar að hún var nú orðin skipstjórafrú í Þorlákshöfn, þar sem hún og maður hennar Jón Ólafsson gerðu út Skálafell ÁR-20. Árið 1975 höfðu þau eignast soninn Jón Tryggva og Jón skipstóri hafði gengið dóttur hennar Birgittu í föðurstað. Bergþóra undi sér vel í þorpinu Þorlákshöfn þar sem hún vann við flest þau störf sem til féllu og fór jafnvel á sjóinn þegar vantaði mannskap. Hún tók líka þátt í starfi leikfélagsins af lífi og sál og naut þess að fara eigin leiðir þegar svo bar undir. Og þegar tóm gafst til tók hún fram gítarinn og spilaði og samdi, oft síðla kvölds og fram á rauðanótt.

Eintak kom út haustið 1977 og hlaut fremur dræmar viðtökur. Í dómi í Dagblaðinu skrifaði Ásgeir Tómasson að þetta væri engin partýplata, heldur setti maður hana á fóninn þegar róleg stund gæfist. Hann sagði ennfremur að söngur Bergþóru léti þægilega í eyrum og væri afslappandi, flokkaði plötuna með öðrum verkum nýgræðinga og taldi hana þar framarlega í flokki. Plötuumslagið taldi hann með endemum ljótt og áleit það geta fælt kaupendur frá frekar en hitt. Eitt af lögunum á Eintaki er Verkamaður við ljóð Steins Steinarrs og er óhætt að fullyrða að það hafi í rauninni komið Bergþóru á kortið sem baráttusöngvara, enda er lagið vel heppnað og hún átti eftir að hljóðrita það oftar en einu sinni næsta áratuginn. Dæmi um annað vel heppnað lag á plötunni er Ráðið við ljóð Páls J. Árdal, en þar styðst Bergþóra eingöngu við eigin gítarundirleik. Texta við lagið Sólarlag samdi hún sjálf en notaðist við dulnefni þar sem hún vildi ekki stilla sér upp við hlið við hinna skáldanna sem áttu ljóð á plötunni.

Eftir níu ára hjónaband fjaraði samband Bergþóru og Jóns Ólafssonar skipstjóra út. Hann gat ekki hugsað sér að flytja til Reykjavíkur, en þangað sótti Bergþóra í auknum mæli til að sinna tónlistinni. Hún ekið Þorlákshafnarveginn í tíma og ótíma, m.a. til að geta starfað með Pólýfónkórnum og vinna að hljóðritunum, en nú þótti henni annað ótækt en að færa sig um set til borgarinnar. Seinna lýsti hún því svo að ekki hefði verið um neitt uppgjör að ræða enda liðu nokkur ár þar til þau gengu frá lögformlegum skilnaði. Í og með var það tónlistin sem tók völdin og hreif listamanninn frá hefðbundnu fjölskyldulífi og öllu því umstangi sem fylgdi sjávarútveginum. Þótt sú ákvörðun hafi eflaust verið erfið má segja að hún hafi skilað árangri, því það er þá fyrst sem hjólin taka að snúast og lífið verður meira í takt við það sem Bergþóru bjó í brjósti þótt það gengi ekki alltaf átakalaust fyrir sig.

Vorið 1979 lá leið Bergþóru á vísnakvöld á Hótel Borg, þar sem hún tróð upp og flutti nokkur af lögum sínum. Á vísnakvöldunum sem þá voru nýtilkomin og nutu vinsælda kynntist hún tveimur af forsprökkum þeirra, en það voru þeir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og tónsmiður og Gísli Helgason tónlistarmaður. Þau kynni urðu til þess að Bergþóra fór að semja lög við ljóð Aðalsteins og saman fóru þau að troða upp árið eftir ásamt Gísla undir heitinu Tríó túkall. Eitt af lögum Bergþóru, Blátt svo blátt, við ljóð eftir Kristinn Reyr var tekið upp fyrir plötu Heimavarnarliðsins og gefið út á árinu 1979. Frá sama ári eru til líka varðveittar hljóðritanir frá vísnakvöldum, m.a. á Draumi við ljóð Steins Steinarrs.

Félagið Vísnavinir starfaði með miklum blóma á þessum tíma og voru vísnakvöldin á Hótel Borg í rauninni einstakir menningarviðburðir. Þar stigu líka margir kunnir tónlistarmenn sín fyrstu skref, t.d. Bubbi Morthens, en einnig þeir sem voru að leita að réttum vettvangi fyrir verk sín og þar hafði Bergþóra erindi sem erfiði. Í hópi nokkurra vísnavina fór hún m.a. á norræna vísnahátíð í Særö fyrir utan Gautaborg sumarið 1980 og þaðan er til skemmtileg hljóðritun á laginu Eftirskrift við ljóð eftir Aðalstein Ásberg. Vorið 1981 réðust nokkrir Vísnavinir í gerð safnplötu sem hlaut nafnið Heyrðu og kom út snemmsumars. Berþóra, Aðalsteinn og Gísli lögðu öll til efni á plötuna, en það gerðu einnig nýliðar í félaginu sem komu fyrst fram undir nafninu Texas tríóið með þá Eyjólf Kristjánsson, Inga Gunnar Jóhannsson og Örvar Aðalsteinsson innanborðs. Þegar Heyrðu kom út var brugðið á það ráð að Tríó túkall og Texas tríóið færu saman í tónleikaferð til að kynna plötuna. Í þeirri ferð naut hópurinn góðs af því hversu vel Bergþóra var kynnt innan verkalýðshreyfingarinnar því Menningar- og fræðslusamband alþýðu greiddi götu þeirra og í staðinn kom hópurinn fram á vinnustöðum og stofnunum á Austurlandi og Norðausturlandi við fádæma góðar undirtektir. Upp úr þessari ferð varð til sönghópurinn Hálft í hvoru, sex manna hljómsveit ólíkra einstaklinga með stóra drauma í farteskinu. Strax í upphafi var ljóst að menn voru ekki að stefna að einu og sama markmiði en síðla hausts ákváðu Bergþóra, Eyjólfur og Aðalsteinn að gefa út 2ja laga jólaplötu og fengu Gísla til liðs við sig þegar kom að hljóðritun á laginu Jól sem Bergþóra hafði samið við ljóð eftir Stein Steinarr. Hitt lagið á plötunni Jólasteinn var ameríski jólaslagarinn I Saw Mummy Kissing Santa Claus við nýjan texta Aðalsteins. Þremenningarnir sem stóðu að útgáfunni fylgdu henni fast eftir, réðu sölufólk og seldu Jólastein einsog heitar lummur, enda þurfti að pressa nýtt upplag viku fyrir jól. Safnplatan Heyrðu naut líka góðs af söluátakinu, seldist upp og var gefin út að nýju árið eftir.

Árið 1982 varð viðburðaríkt í lífi Bergþóru. Hún var orðin ástfangin af Þorvaldi Inga Jónssyni, ungum viðskiptafræðingi, sem hún hafði kynnst síðsumars árið áður og þau hafið sambúð stuttu síðar. Strax í upphafi ársins hófst undirbúningur hjá Hálft í hvoru vegna fyrirhugaðrar plötu sem MFA, Menningar- og fræðslusamband alþýðu, vildi gefa út með verkalýðssöngvum. Í febrúar hélt hljómsveitin í viku tónleikaferð um vesturland og kom fram 30 sinnum á vinnustöðum og kvöldtónleikum, en í marsmánuði stóðu yfir upptökur í Stúdíó Stemmu og útgáfudagur var ákveðinn 1. maí. Hálft í hvoru fékk góðan byr og platan Almannarómur afar góðar viðtökur. Tónleikaferð var bókuð á vegum MFA til Vestfjarða í júní og var einstaklega vel heppnuð. Hápunktur ferðarinnar voru lokatónleikar á Patreksfirði þar sem 200 áhorfendur mættu og til er hljóðritun af hluta þeirra tónleika sem gefa góða mynd af hljómsveitinni á þessum tíma. Á sama tíma var Bergþóra að undirbúa hljóðritun á nýrri sólóplötu og þar kom Þorvaldur Ingi að málum, vildi leggja sitt af mörkum og réðst í að stofna útgáfufyrirtækið ÞOR sem stóð síðan að útgáfu á tónlist hennar næstu árin.

Upptökur á Bergmáli hófust í apríl og stóðu fram í júlí. Hljóðritað var í Stúdíó Nema í Glóru í Hraungerðishreppi, en útsetningar og upptökustjórn voru í höndum Gísla Helgasonar og Helga E. Kristjánssonar. Margir hljóðfæraleikarar voru kallaðir til leiks, m.a. Guðmundur Ingólfsson á píanó, en í ljósi sögunnar er það skemmtileg tilviljun að þetta sumar var unglingsstúlkan Björk Guðmundsdóttir eitthvað viðloðandi í Glóru og söng bakraddir í nokkrum lögum á plötunni. Einnig kom við sögu Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari, sem nokkrum árum seinna var orðin einn þekktasti fiðluleikari landsins. Þetta sumar fór Hálft í hvoru í fyrstu utanlandsferð sína og kom fram á norrænni hátíð í bænum Piteå í Norður-Svíþjóð. Í þeirri ferð kom upp ágreiningur í sveitinni og þegar heim var komið var haldinn krísufundur sem lyktaði á þann veg að Bergþóra var látin víkja úr hljómsveitinni. Raunar hafði aldrei ríkt algjör eining um stefnu og stíl hjá Hálft í hvoru, enda til orðin með samruna sem þó virkaði vel um skeið. Nú þótti mönnum rétti tíminn kominn til að stokka upp og Bergþóra stóð einmitt á tímamótum og hafði um nóg annað að hugsa en Hálft í hvoru þar sem platan Bergmál var í burðarliðnum. Þetta var ekki sársaukalaus ákvörðun en sennilega gæfuspor bæði fyrir hljómsveitina og söngkonuna. Þrátt fyrir að ferðin til Piteå yrði örlagarík lagði hún líka grunn að nýjum vettvangi sem var samstarf Bergþóru við norræna tónlistarmenn. Þar hitti hún m.a. fiðluleikarann Svein Nymo frá Tromsø, sem kom seinna til Íslands og fór með henni í tónleikaferð.

Lögin á Bergmáli voru valin úr miklum fjölda laga sem Bergþóra hafði samið allt frá unglingsárum og sum þeirra höfðu verið á tónleikadagskrá hennar í mörg ár. Eitt þeirra er Sýnir en það hafði m.a. komist í úrslit í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 1981. Þar átti Bergþóra reyndar annað lag, Laugardagskvöld, sem hún hafði samið í einhverju bríaríi og sent í keppnina en datt víst aldrei í hug að hljóðrita til eigin nota.

Bergmál kom út í sept. 1982 og hlaut góða dóma gagnrýnenda. Platan seldist líka nokkuð vel og þá ekki síst á þeim vettvangi sem söngkonan gat fylgt henni eftir, á tónleikum og mannamótum. Með Bergmáli tryggði Bergþóra sér sess meðal fremstu trúbadúra landsins þótt fáir gerðu sér kannski grein fyrir því á þeim tíma að kona einsömul með 12 strengja gítar og tilfinningaþrungna túlkun í söng væri ekki á hverju strái.

Árið 1982 bar einnig í skauti sér upptöku á laginu Hvert afrek bróðir? við ljóð Gunnars Dal, en það kom út á safnplötu Heimavarnarliðsins sem bar heitið Hvað tefur þig bróðir? Lagið styrkti söngkonuna enn frekar í sessi sem róttækan liðsmann baráttunnar gegn herstöðinni á Miðnesheiði. Sú hugmynd var líka frá Bergþóru komin að tónlistarmenn heimsæktu Litla-Hraun og skemmtu föngunum þar. Margir tónlistarmenn tóku þátt í því verkefni, þ.á.m. Bubbi Morthens. Bergþóra var líka einn af stofnendum og virkur þátttakandi í SATT, Samtökum alþýðutónskálda og textahöfunda, og þau Þorvaldur Ingi gerðust ennfremur meðeigendur Jóhanns G. Jóhannssonar í Gallery Lækjartorgi, síðar Listamiðstöðinni hf.

Frá og með útkomu Bergmáls sneri Bergþóra sér alfarið að tónlistinni og naut þá eindregins stuðnings Þorvaldar Inga, eiginmanns síns og útgefanda. Vorið 1983 hélt hún fyrstu sumardagstónleikana sína í Norræna húsinu en þeir urðu síðan fastur liður í dagskrá hennar næstu árin. Það ár kom Pálmi Gunnarsson, sem hafði unnið að Eintaki með henni nokkrum árum áður, aftur til samstarfs við hana og tók síðan virkan þátt í upptökum á þriðju sólóplötunni um sumarið. Sterka innkomu átti líka gítarleikarinn Tryggvi Hübner, sem átti eftir að leggja henni lið á fleiri plötum, en aðrir hljóðfæraleikarar voru Gísli Helgason á blokkflautur og Kolbeinn Bjarnason á þverflautur. Á Afturhvarfi voru dregin fram í dagsljósið lög sem Bergþóra samið og flutt áður en hún tók upp fyrstu plötuna sína en líka nýrri lög og eitt norskt lag sem hún hafði hrifist af og fékk Aðalstein Ásberg til að þýða textann við. Það heyrði reyndar til undantekninga að Bergþóra syngi lög eftir aðra en sjálfa sig, en ári seinna lét hún reyndar tilleiðast að syngja eitt lag á plötu Bjarna Hjartarsonar Við sem heima sitjum, enda hafði hún hvatt höfundinn sérstaklega til að ráðast í plötuútgáfu.

Afturhvarf er um margt ólík Bergmáli, yfirbragðið einfaldara, undirleikurinn oftast gítarar og kontrabassi og útsetningar yfirleitt unnar í hópvinnu á staðnum. Þannig varð þessi plata um margt líkari þeirri áferð sem einkenndi flutning Bergþóru þegar hún kom fram á tónleikum. Til marks um stóran hlut Pálma Gunnarssonar þá syngur hann titillag plötunnar og þar er einnig eitt leikið lag eftir hann sem stingur óneitanlega svolítið í stúf við heildina.

Eftir að upptökum á Afturhvarfi lauk brugðu þau Bergþóra og Þorvaldur Ingi sér í siglingu með skemmtiferðaskipinu Ms. Eddu til Englands. Áður en lagt var úr höfn voru þau gefin saman í hjónaband um borð, en af því tilefni lék hljómsveitin Hálft í hvoru fyrir gesti svona rétt til að minna á að fyrrverandi söngkona sveitarinnar væri þeim ennþá kær. Brúðkaupsferðin var kannski dæmigerð fyrir líf listamannsins, því Bergþóra skemmti gestum um borð og með í för voru samstarfsmenn hennar Pálmi og Tryggvi Hübner. Afturhvarf kom út á haustdögum og hlaut ekki eins góðar viðtökur og Bergmál. Engu að síður eru þar mörg af bestu lögum Bergþóru og með henni öðlaðist hún sterkari sess sem söngvari og gítarleikari.

Seint á árinu 1983 kom upp sú hugmynd að Bergþóra leitaði á ný mið og reyndi fyrir sér á vettvangi barnatónlistar. Í samstarfi við Aðalstein Ásberg kynnti hún hugmyndir að leiknu tónlistarefni fyrir stjórnendum Stundarinnar okkar í Sjónvarpinu, sem voru jákvæðir og áhugasamir um nýtt efni. Á þeim tíma var fjármagn til innlendrar framleiðslu hins vegar af skornum skammti og því gat Sjónvarpið ekki ráðist í verkefnið einsog vonir stóðu til. Bergþóra og Aðalsteinn létu það ekki aftra sér, fengu til liðs við sig norskan tónlistarmann, Geir-Atle Johnsen, sem þá var búsettur á landinu og réðu til sín kvikmyndatökumann til að vinna að verkefninu sem hlaut nafnið Ævintýri úr Nykurtjörn. Ekki er hægt að segja að reynsla þeirra fjórmenninga á sviði sjónvarpsmyndagerðar hafi verið traustvekjandi. Þó tókst að krýja út bankalán til að standa straum af upptökukostnaði, en útkoman varð ekki með þeim hætti að sjónvarpið gleypti við efninu og aðstandendur sátu uppi með hálfklárað verk. Þá var brugðið á það ráð að nýta tónlistina úr myndinni og gefa út á plötu, en með henni fylgdi ævintýrið í bókarformi. Sem fyrr var það útgáfufyrirtækið ÞOR sem stóð fyrir útgáfunni, en listamennirnir skrifuðu ótrauðir upp á víxlana í bankanum. Ævintýri úr Nykurtjörn kom út síðsumars 1984 og var skemmtileg en alltof dýr tilraun til nýsköpunar á þjóðlegum grunni. Ævintýrið rataði árið eftir á svið í Osló hjá Symre Musikk Teater, en tveimur árum seinna tókst loksins að klára sjónvarpsmyndina og hún var sýnd á Stöð 2. Árið 2006 kom Ævintýrið svo loks út á hljóðbók þar sem upprunalega tónlistin nýtur sín vel. Haustið 1984 fór Bergþóra ásamt Eyjólfi Kristjánssyni, fyrrum félaga sínum í Hálft í hvoru, í tónleikaferð um landið þar sem þau léku efni af ýmsum toga á fjölmörgum stöðum.

Sumarið 1984 kynntust þau Bergþóra og Þorvaldur Ingi enska fiðluleikaranum Graham Smith sem hafði verið búsettur á Íslandi um árabil. Þau kynni leiddu til samstarfs þeirra Grahams og Bergþóru. Með fulltyngi Tryggva Hübners var síðan haldið í hljóðver á vordögum 1985. Platan Það vorar kom út síðsumars og til að vekja athygli á henni var m.a. gert myndband við lagið Lífsbókin með þeirri nýjung að fá táknmálstúlk til að fara með textann. Tvö lög af plötunni vöktu athygli, annars vegar Lífsbókin, lag Bergþóru við ljóð Laufeyjar Jakobsdóttur, og hins vegar Þrjú ljóð um lítinn fugl, sem Bergþóra hafði samið sumarið áður við ljóð Tómasar Guðmundssonar. Í heild var platan sundurleit og sérkennileg þar sem saman fóru tónsmíðar Grahams, nokkurs konar náttúrustemmningar eða óður til Snæfellsness, og vísnasöngur Bergþóru. Hljóðritunin var gerð við fremur fátæklegar aðstæður í hljóðverinu Mjöt og stendur öðrum hljóðritunum Bergþóru svolítið að baki fyrir þær sakir. Sumarið 1985 var Bergþóra hins önnum kafin við tónlistarflutning, tók þátt í norrænu tónlistarhátíðinni Vísland 85, sem haldin var að Laugarvatni, flutti vikulega ferðamannadagskrá ásamt Aðalsteini Ásberg í Naustinu og undirbjó ásamt honum stóra tónleikaferð hringinn um landið sem farin var um haustið. Ferðin var hluti af norrænni samvinnu og sú nýbreytni tekin upp að þau Bergþóra og Aðalsteinn lögðu samtímis upp í hringferðina, hún hélt í austurátt ásamt norska vísnasönvaranum Ola Nordskar, en Aðalsteinn fór vestur um land ásamt finnska tónlistarmanninum Mecki Knif. Samanlagt héldu þau rúmlega 30 tónleika á tveimur vikum, mættust á miðri leið á tónleikum á Kópaskeri og héldu sameiginlega lokatónleika í Norræna húsinu. Ferðin varð tónlistarmönnunum eftirminnileg, en aðsóknin misjöfn og þegar upp var staðið ekki til fjár, enda sjaldnast á vísan að róa. Í þessari ferð samdi Bergþóra íslenskan texta við lag eftir norska vísnasöngvarann Lillebjörn Nilsen og kallaði Crescendo i vistgötunni. Því miður var það aldrei hljóðritað en textinn birtist í Nordisk visebok 1994. Í framhjáhlaupi má geta þess að Bergþóra og Lillebjörn áttu svolítil samskipti vegna lags sem sá síðarnefndi gaf út á plötu árið 1985 og reyndist vera óþægilega keimlíkt laginu Móðursorg sem Bergþóra hafði sent frá sér á Afturhvarfi. Höfundarréttur hennar var tekinn til greina og sættir urðu án eftirmála.

Þrátt fyrir litla velgengni Ævintýris úr Nykurtjörn ákvað Bergþóra að reyna enn fyrir sér á sviði tónlistar fyrir unga áheyrendur en þó með allt öðrum hætti. Sú hugmynd fæddist að hljóðrita og gefa út valin lög við ljóð úr Skólaljóðunum. Enn var farið í Stúdíó Mjöt og til sögunnar kallaður Jóhann Morávek sem útsetti og stjórnaði upptökum. Skólaljóð komu út haustið 1986 á snældu, þar sem Bergþóra söng lögin á annarri hliðinni en á hinni hliðinni var undirleikur sem átti að nýtast fyrir skólabörn. Hljómgæðin á þessum upptökum voru af skornum skammti, því ekki reyndist gerlegt að kosta miklu til. Á þessum tíma var ekki um að ræða neina styrki til útgáfu og umtalsvert tap var á sumum þeirra hljóðritana sem út komu. Af þeim sökum varð ekkert af frekari útgáfu skólaljóða þótt upphaflega hugmyndin væri að snældurnar yrðu fleiri en ein.

Þetta sama ár fór Bergþóra vítt og breitt um landið, hélt tónleika ásamt Aðalsteini Ásberg og finnska vísnasöngvaranum Henrik Huldén og fór í lengri tónleikaferð ásamt Mecki Knif. Einnig sendi hún frá sér eitt nýtt lag, Nótt í erlendri borg, á safnplötu Vísnavina og átti eitt af 5 úrslitalögum í samkeppni sem haldin var um Reykjavíkurlag. Björgvin Halldórsson flutti lagið Samviskan í sjónvarpsþættinum Með þínu lagi vorið 1986, en síðan hefur það legið óbætt hjá garði. Annað Reykjavíkurlag, Hugsun, sem Bergþóra samdi á sama tíma var henni hugstæðara og það ákvað hún að hljóðrita sjálf.

Hljómplötuútgáfan ÞOR var ekki rekin með gróða en framkvæmdastjórinn Þorvaldur Ingi lumaði á ýmsum áformum. Eitt af því sem honum þótti vanta upp á þegar vísnatónlistin var annars vegar var að koma henni að í Sjónvarpi. Hann tók sér fyrir hendur að brjótast í gegnum þann múr og réðst í stórverkefni ásamt Bergþóru. Árangurinn lét ekki á sér standa því á endanum tókst að semja við Sjónvarpið um að taka upp tónlistarþátt þar sem Bergþóra flutti mörg af sínum þekktustu lögum. Upptökur fóru fram í hljóðverinu Stemmu sem þá var til húsa í gamla Ísbirninum á Seltjarnarnesi. Hljóðverið var svo rúmgott að þar var bæði hægt að hljóðrita og kvikmynda samtímis að viðstöddum áhorfendum. Sigurður Rúnar Jónsson sá um allar framkvæmdir vegna upptöku tónleikanna, en Tryggvi Hübner og Pálmi Gunnarsson leiddu vaska sveit tónlistarmanna. Tónleikarnir voru haldnir 27. maí 1987 og gengu að óskum, þótt úrvinnslan drægist á langinn. Í september var þráðurinn tekinn upp að nýju og fleiri lög hljóðrituð. Þegar upp var staðið höfðu 22 lög verið tekin upp, mörg þeirra nýlega samin og með textum eftir Bergþóru sjálfa. Í sjónvarpsþættinum sem sýndur var í október var hins vegar lögð áhersla á eldra efni. Þegar kom að því að velja lög til útgáfu á LP plötu var aðeins pláss fyrir 11 lög, en á geisladiski sem kom út samtímis voru lögin 15. Þótt nokkur lög sem ekki voru gefin út nýttust í sjónvarpsþættinum mættu önnur afgangi og voru geymd og næstum gleymd.

Platan hlaut nafnið Í seinna lagi og kom út í nóvember. Á plötuna fóru 7 ný lög og fjögur eldri sem flutu með í nýjum útsetningum, þ.á.m. þriðja útgáfa af Verkamanninum og Frá liðnu vori við ljóð Tómasar Guðmundsonar, sem Eyjólfur Kristjánsson fékk nú að spreyta sig á. Geisladiskurinn hafði að geyma átta eldri lög, en það voru fyrst og fremst nýju lögin sem sýndu framþróun Bergþóru sem listamanns og lagahöfundar. Sandkorn er dæmi um lag af plötunni sem fékk töluverða útvarpsspilun, en það samdi Bergþóra við ljóð Birgittu dóttur sinnar og hafði lengi vel áform um frekara samstarf þeirra mæðgna sem aldrei varð þó af vegna heilsubrests Bergþóru. Ennfremur var henni mikið í mun að fá unga og upprennandi tónlistarmenn til liðs við sig og að þessu sinni var það fiðluleikarinn Hjörleifur Valsson, sem sýndi snilldartakta. Hann átti síðar eftir að koma fram með Bergþóru á tónleikum bæði á Íslandi og Norðurlöndum og þeim varð vel til vina.

Þegar hér var komið sögu hafði Bergþóra í mörg horn að líta og það hafði færst í vöxt að hún kæmi fram á Norðurlöndunum, oft í tengslum við samstarf sitt við aðra tónlistarmenn. Það leiddi til þess að hún fór að velta fyrir sér að flytjast búferlum og eftir að hafa verið á tónlistarhátíð í Skagen í Danmörku varð sá staður henni ofarlega í huga. Í fyrstu ræddu þau Þorvaldur Ingi um að flytjast þangað saman, en það gekk ekki eftir og þau skildu í sátt og óskuðu hvort öðru velfarnaðar. Undir lok ársins 1987 hafði fjölskyldan orðið fyrir miklu áfalli þegar Jón Ólafsson skipstjóri fyrirfór sér. Þau Bergþóra höfðu ávallt haldið góðu sambandi þótt hjónabandið hefði ekki enst lengur en tæpan áratug. Líklega olli þessi atburður meira hugarangri hjá Bergþóru en hún gerði sér grein fyrir í fyrstu og það tók hana mörg ár að bægja frá sér sektarkennd vegna dapurlegra örlaga Jóns.

Það var ekki nóg með að Bergþóra tæki þá ákvörðun að flytja frá Íslandi. Á sama tíma lauk þriðja hjónabandi hennar og hún stóð ennfremur uppi án útgefanda að tónlist sinni. Tímamótin voru mikil og framtíðin óviss þegar Bergþóra settist að á Skagen en fljótlega eftir komuna þangað varð hún fyrir bíl og meiddist á handlegg. Skaðinn var alvarlegri en hann virtist í fyrstu og í marga mánuði gat hún ekkert spilað. Það bætti ekki úr skák að hún var illa stödd fjárhagslega. Á haustdögum var hún þó farin að spila aftur og hélt tónleika í bænum Nibe. Þar hitti hún fyrst Hans Peter Sörensen, sem stjórnaði lítilli útvarpsstöð, og þau náðu fljótt vel saman enda leið ekki á löngu áður en þau hófu sambúð.

Bergþóra sendi inn lagið Fugl í búri í Íslensku Söngvakeppnina - Landslagið 1989 og komst þar í úrslit. Árið eftir átti hún lagið Gott er að lifa í undankeppni Evrópusöngvakeppninnar í sjónvarpinu og í sjónvarpsþætti haustið 1991 frumflutti hún nýtt lag, Neptúnus, sem hún hafði samið til nýfædds dóttursonar síns. Úti í Danmörku stóð hún í stórræðum því þau Hans Peter festu kaup á gömlu hóteli árið 1990 en reksturinn varð þeim erfiðari en þau höfðu gert ráð fyrir. Foreldrar Bergþóru ákváðu að njóta þess að vera komin á eftirlaun, seldu húsið sitt í Hveragerði og keyptu lítið hús við hliðina á húsi dóttur sinnar í Danmörku og fluttust þangað. Bergþóra var bjartsýn og settist á skólabekk til að læra ferðamálafræði, en var líka að spila og syngja. Hamingjan var þó skammvinn. Snemmasumars 1993 dundi fyrsta áfallið yfir þegar tengdasonur hennar, Charles Egill Hirt, framdi áþekkt sjálfsvíg og Jón Ólafsson nokkrum árum á undan. Fjölskyldan var harmi slegin. Árni gítar lést síðan sviplega úr hjartaslagi í lok ágúst og daginn eftir útför hans lenti Bergþóra í alvarlegu bílslysi. Hún slasaðist mikið, var á sjúkrahúsi í rúman mánuð og gekkst síðar undir margar læknisaðgerðir til að ná betri heilsu. Örlögin höfðu gripið í taumana og í rauninni var þarna bundinn endi á tónlistarferil hennar. Fyrr á árinu hafði hún tekið upp lag til að senda í samkeppni um lög við ljóð Tómasar Guðmundssonar, en Fagra veröld átti ekki upp á pallborðið, hvorki í samkeppninni né í raunveruleikanum. Árin sem fóru í hönd voru erfið og mótbyrinn mikill.

Síðustu tónleikaför sína um Ísland fór Bergþóra í maí og júní 1999, en árið áður hafði komið út geisladiskurinn Lífsbókin með úrvali laga hennar frá árunum 1977-1987. Tónleikaferðin fékk yfirskriftina Skref fyrir skref og var farin á puttanum. Það var auðvitað í anda baráttukonunnar að fara óhefðbundnar leiðir, en ferðin hófst með tónleikum í Norræna húsinu þar sem móðir hennar var gestur og lék á munnhörpu og börnin hennar tvö, Birgitta og Jón Tryggi, tróðu líka upp. Í ferðinni fékk hún heimamenn á ýmsum stöðum til að koma fram með sér og það var auðvitað líka í hennar anda.

Þegar Bergþóra greindist með krabbamein í lunga vorið 2005 lét hún niðurstöður lækna lönd og leið og vildi ekki gangast undir hefðbundna meðferð. Hún trúði því sjálf að óhefðbundnar aðferðir væru vænlegri til árangurs og hafði þá í mörg ár staðið í innflutningi á hákarlabrjóski og -lýsi til Danmerkur sem hún taldi allra meina bót. Hún vildi sjálf vera við stjórnvölinn í lífi sínu og horfast í augu við vágestinn.

Í heilan áratug hljóðritaði Bergþóra engin lög, en samdi eitthvað þótt það hafi sennilega verið mun minna en hana dreymdi um að gera. Nokkrir tónlistarmenn sungu og hljóðrituðu þó lög eftir hana. Frá liðnu vori kom út á hljómdiski með lögum við ljóð Tómasar Guðmundssonar 1993 í flutningi Egils Ólafssonar og Pálmi Gunnarsson söng Verkamann á hljómdiski með ljóðum eftir Stein Steinarr 1998. Sænska vísnasöngkonan Thérèse Juel gaf Sýnir út á sænsku árið 2000 og norski söngvarinn Guren Hagen hljóðritaði Frá liðnu vori í norskri þýðingu 2001. Sjálf tók Bergþóra upp danska útgáfu af Gott er að lifa með nýjum texta af allt öðrum toga. Sú útgáfa lagsins hafnaði í 2. sæti í samkeppni sem danska sjónvarpið efndi til um lag í tilefni af brúðkaupi Friðriks krónprins og heitkonu hans Mary vorið 2004.

Haustið 2005 fann Bergþóra sig knúna til að fara í hljóðver og spila inn nýtt lag sem hún hafði samið við ljóðið Þjóðarblómið eftir Kristján Hreinsson, en það hafði Birgitta dóttir hennar sent henni tveimur árum áður. Í símtali við Birgittu sagði hún lagið hafa komið til sín á sömu stundu og fyrsta tjaldinu í alþjóðlegum mótmælabúðum við Kárahnjúka var slegið upp. Þjóðarblómið varð síðasta upptakan sem Bergþóra gerði, farin að heilsu, en gamli eldmóðurinn enn fyrir hendi. Þetta undurfallega lokalag rímar á sinn hátt við allt sem hún hafði áður gert og með því lagði hún lokahönd á óvenjulegan og athyglisverðan feril.

Bergþóra Árnadóttir andaðist í Danmörku á kvenréttindadaginn 8. febrúar 2007. Með henni hvarf af sjónarsviðinu litríkur persónuleiki og einstakur tónlistarmaður.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Record Label: Fálkinn, Þor, Skífan, Dimma
Type of Label: Major

My Blog

Tónlistin frá minningartónleikunum

Hef loksins fengið til hlustunnar tónlistina sem tekin var upp fyrir Rás 2 af minningartónleiknum sem haldnir voru 15. febrúar síðastliðinn til að heiðra minningu Bergþóru á sextugsafmælinu hennar. Þe...
Posted by Bergþóra Árnadóttir on Sun, 31 Aug 2008 05:07:00 PST

Bergþóra fyrir handan og hér

Markmiðið með tilveru Bergþóru á myspace er að miðla upplýsingum um viðburði sem tengjast því að halda minningu hennar á lofti eftir andlát hennar. Bergþóra vildi ekki nota netið í sína þágu á meðan h...
Posted by Bergþóra Árnadóttir on Sun, 03 Aug 2008 11:19:00 PST

Þjóðarblómið - Jón Tryggvi Unnarsson

http://www.youtube.com/watch?v=ccLEpOSQH0s Jón Tryggvi flytur Þjóðarblómið á seinni minningartónleikum til heiðurs Bergþóru. Síðasta lagið sem Bergþóra samdi áður en hún lézt 2007. Hennar ós...
Posted by Bergþóra Árnadóttir on Sat, 31 May 2008 03:03:00 PST

Gígjan - Svavar Knútur

http://www.youtube.com/watch?v=HLyTW3P_WAw ...
Posted by Bergþóra Árnadóttir on Sat, 10 May 2008 04:31:00 PST

Plata vikunnar á Rás 2

Heildarútgáfa Bergþóru verður plata vikunnar á Rás 2 í næstu viku. Þetta er 5 diska safn með helling af aukaefni sem hefur ekki áður komið út. Diskunum fylgir afar fallegur bæklingur sem er einar 64 s...
Posted by Bergþóra Árnadóttir on Sat, 19 Apr 2008 12:09:00 PST

AukaMinningartónleikar Bergþóru Árnadóttur

Miklu færri komust að á Minningartónleikana en vildu og því höfum við Hjörleifur Vals verið á fullu að púsla saman aukatónleikum og nú erum við loks búin að finna stað og stund. Aukatónleikarnir verða...
Posted by Bergþóra Árnadóttir on Sun, 23 Mar 2008 10:54:00 PST

Bergþóra á YouTube

Setti tvö ný myndskeið hér á síðuna. Annað er tekið úr þætti sem sýndur var árið 1987 í RÚV. Lagið sem við völdum úr þessum þætti er Lífsbókin, eitt ástsælasta lag Bergþóru. Ljóðið er eftir Grjótaþorp...
Posted by Bergþóra Árnadóttir on Mon, 18 Feb 2008 08:26:00 PST

Minningartónleikar

Þann 15. febrúar 2008 hefði Bergþóra Árnadóttir fangað 60 ára afmæli sínu. Að því tilefni verða haldnir tónleikar til minningar um söngvaskáldið og baráttukonuna en hún lést langt fyrir aldur fram í m...
Posted by Bergþóra Árnadóttir on Tue, 22 Jan 2008 05:17:00 PST